Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Lestrarátak Ævars vísindamanns

05.01.2016
Lestrarátak Ævars vísindamanns

1. janúar hófst lestrarátak Ævars vísindamanns aftur. Átakið stendur til 1. mars 2016 og er fyrir alla krakka í 1.-7. bekk. 

Ævar Þór, leikari og rithöfundur stóð í fyrra fyrir lestrarátaki Ævars vísindamanns sem flestir skólar á landinu tóku þátt í. Árangurinn lét ekki á sér standa, en þegar allar tölur voru komnar í hús kom í ljós að í átakinu voru lesnar 60 þúsund bækur! Þetta er gríðarlega góður árangur og því sá hann skyldu sína að endurtaka leikinn.

Nú langar hann að leita til ykkar og biðja ykkur um að taka þátt í þessu lestrarátaki.
Lestrarátakið virkar þannig að fyrir hverjar þrjár bækur sem nemendur í 1. - 7. bekk lesa fylla þau út miða sem þau sækja á skólasafninu eða í gegnum www.visindamadur.isForeldri eða kennari kvitta á hvern miða og svo verður miðinn settur í kassann góða sem staðsettur er  á skólasafninu.

Í lok átaksins sendum við miðana til Heimilis og skóla, en starfsfólkið þar munu sjá um að taka við þeim. Því fleiri bækur sem börnin lesa því fleiri miða eiga þau í pottinum.

Það skiptir engu máli hvort bókin sem er lesin sé löng eða stutt, teiknimyndasaga, Myndasögusyrpa eða skáldsaga - bara svo lengi sem börnin lesa. Sömuleiðis skiptir tungumálið sem bókin er á ekki máli. Bækurnar mega vera á íslensku, dönsku, frönsku, pólsku, japönsku, ensku o.s.frv. - bara svo lengi sem börnin lesa.
Í lok átaksins verða dregin út nöfn fimm barna og fá þau í verðlaun að verða persónur í nýrri ævintýrabók sem Ævar er að skrifa (Bernskubrek Ævars vísindamanns 2: Árás vélmennakennaranna) sem kemur út með vorinu hjá Forlaginu - svo það er til mikils að vinna. Að auki munum við í Álftanesskóla draga út 3 nöfn og mun þau fá bók í verðlaun.

Þetta er lestrarátak gert af bókaormi, til að reyna að búa til nýja bókaorma - en það er dýrategund sem má alls ekki deyja út.

 

Hvetjum alla nemendur til lesturs.

Til baka
English
Hafðu samband