Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Skólastarf næstu vikur

16.03.2020
Skólastarf næstu vikurTil foreldra/forráðamanna nemenda í Álftanesskóla. 

Óvæntar aðstæður í samfélaginu kalla á breytt skipulag grunnskólastarfs, sem mun taka talsverðum breytingum í því samkomubanni sem lagt hefur verið á og tók gildi frá miðnætti í gær. Óhjákvæmilega felur það í sér að skólastarf getur ekki verið með sama hætti og áður og ný framkvæmd á skólastarfinu tekur tímabundið við frá þriðjudeginum 17. mars.

Í dag, mánudaginn 16. mars er skipulagsdagur í grunnskólunum og aðeins starfsfólk mætir í skóla. Umsjónarkennarar munu senda seinna í dag skipulag náms næstu daga. 
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út grunn af því hvernig skólahaldi skal háttað í grunnskólum landsins og tók fræðslusvið Garðarbæjar þátt í mótun á þeirri áætlun. Skólar innan Garðabæjar hafa svo fengið það hlutverk að útfæra þessa áætlun miðað við aðstæður á hverjum stað. Starfsfólk Álftanesskóla er í dag að vinna að útfærslu fyrir okkar skóla. 

Það sem er nú þegar ljóst er: 
a) Hver nemandi mun vera í einum hópi (bekk, hámark 20 nemendur) í einni stofu og mun ekki fara á milli stofa eða blandast við aðra bekki/hópa. Öll kennsla í verk- og listgreinastofum fellur niður - en mögulega     gætu þær stofur í einhverjum tilvikum verið notaðar fyrir einn ákveðinn hóp. Formlegri þrótta- og sundkennslu verður hætt í íþróttasölum/-mannvirkjum. Nemendur blandast ekki og skólanum skipt í svæði.
b) Allir nemendur verða með skerta stundaskrá, mismikla þó eftir aldri nemenda, og áhersla auk þess á heimanám, meira hjá eldri nemendum en yngri.
c) Frístundaheimili mun starfa fyrir þá nemendur í 1.-2. bekk sem þar eru nú þegar skráðir en það verður einnig með skerta starfsemi eða frá 13:00 - 15:00.
d) Matsalur skólans mun loka en einhverjir nemendur þurfa að koma með nesti en það kemur fram í tölvupósti sem umsjónarkennarar senda hverjir það eru.

Mjög mikilvægt er að foreldrar tilkynni um veikindi og leyfi eins og venjulega er og skrá það sjálfir í Mentor. 

Foreldrar eiga undir engum kringumstæðum að koma inn í skólabygginguna meðan á samkomubanni stendur. 

Markmiðið með öllum þessum aðgerðum sem munu koma til framkvæmda í skólanum er að tryggja sem mest öryggi gagnvart mögulegu smiti.

Við þökkum ykkur fyrirfram fyrir skilning á þessum fordæmalausu aðstæðum sem kalla á þessa framkvæmd og væntum góðs samstarfs milli skóla og heimilis við þessar sérstöku aðstæður. Börn þurfa virkni og skipulag í aðstæðum sem þessum.

Kær kveðja, stjórnendur Álftanesskóla.
 

Myndir með frétt

    Til baka
    English
    Hafðu samband