Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Forvarnavika í leik- og grunnskólum 2.-6. október

02.10.2017
Forvarnavika í leik- og grunnskólum 2.-6. októberDagana 2.-6. október verður haldin forvarnavika í leik- og grunnskólum Garðabæjar.  
Þema vikunnar er snjalltækjanotkun, líðan og svefn.  Í vikunni verður boðið upp á fræðslu þessu tengt fyrir foreldra í Garðabæ, starfsfólk skólanna og nemendur.  Undirbúningur fyrir forvarnavikuna hefur staðið yfir frá því í vor og bæði starfsfólk og nemendur hafa komið að undirbúningnum.  

,,Er síminn barnið þitt?“
Slagorð vikunnar „Er síminn barnið þitt?“ kemur úr hugmyndavinnu nemenda á miðstigi grunnskólans.  Í haust var haldin teiknisamkeppni meðal nemenda í leik- og grunnskólum um mynd á veggspjöld forvarnavikunnar og sex teikningar hlutu viðurkenningu.  Vinningsmyndina teiknaði Hafdís Rut Halldórsdóttir, nemandi í 7. bekk í Sjálandsskóla.  Aðrir sem hlutu viðurkenningu voru: Magdalena Arinbjörnsdóttir, nemandi í 8. bekk Sjálandsskóla, Helen Silfá Snorradóttir, nemandi í Hofsstaðaskóla, Gústaf Maríus D. Eggertsson, nemandi í 1. bekk Flataskóla, Davíð Oddsson Thorarensen, leikskólanum Holtakoti og Maríanna K. Logadóttir, leikskólanum Holtakoti.  Myndir nemendanna prýða veggspjöld sem minna okkur á mikilvægi þess að stýra okkar eigin net- og skjánotkun af skynsemi. Veggspjöldin verða til sýnis í leik- og grunnskólum og öðrum byggingum Garðabæjar í forvarnavikunni. 
Opinn fræðslufundur fyrir foreldra – fimmtudaginn 5. október kl. 20 í Sjálandsskóla

Fimmtudaginn 5. október kl. 20:00 verður haldinn opinn fræðslufundur fyrir foreldra í húsnæði Sjálandsskóla, við Löngulínu.  Á fundinum verður fjallað um umgengni við snjalltæki og hvað beri að varast.  Á fundinum flytja Björn Hjálmarsson, barna- og unglingageðlæknir, og Arna Skúladóttir, hjúkrunarfræðingur, erindi.  Yfirskrift erindis Björns Hjálmarssonar er ,,Snjalltækjanotkun barna og unglinga – er eitthvað að óttast?“, þar sem hann fjallar um þær miklu lífstílsbreytingar sem orðið hafa hjá börnum og unglingum með tilkomu nýrrar tækni og hvort einhverjar ógnir lúri í farvatninu. Arna Skúladóttir,  barnahjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í svefni og svefnvanda barna, ræðir um hvað hefur áhrif á svefn barna og unglinga, t.d. skipulag á daglegu lífi, venjur foreldra og persónugerð barnsins.   Léttar veitingar verða í boði á fundinum og allir eru velkomnir. 
Samstarf um forvarnavikuna
Forvarnavikan í Garðabæ er nú haldin í annað sinn og í ár taka leikskólar Garðabæjar einnig þátt í vikunni.  Vikan er samstarfsverkefni mannréttinda- og forvarnarnefndar Garðabæjar og leik- og grunnskóla í bænum.  Auk þess er opni fræðslufundurinn fyrir foreldra haldinn í samvinnu við Grunnstoð Garðabæjar sem er samstarfsvettvangur foreldrafélaga í grunnskólum Garðabæjar.
 
Til baka
English
Hafðu samband